Aldrei hafa verið haldnar jafnmargar ráðstefnur og námskeið  á Hrafnseyri yfir sumartímann eins og síðastliðið sumar, en þá voru haldnar tvær ráðstefnur og þrjú námskeið á staðnum, og eitt námskeið í Reykjavík. Önnur ráðstefnan, "Hrafn Sveinbjarnarson - höfðingi, pílagrímur og læknir", var haldin á Hrafnseyri til minningar um Hrafn Sveinbjarnarson, sem tekinn var af lífi á Hrafnseyri fyrir 800 árum. Þá hét staðurinn Eyri við Arnarfjörð, en var síðar nefndur í höfuðið á Hrafni og kölluð Hrafnseyri. Ráðstefnan var haldin þann 24. ágúst á Hrafnseyri  og 5. október í Þjóðminjasafninu í Reykjavík. Hin ráðstefnan, "Í Byrjun Tveggja Alda - hugsjónir aldamótakynslóðarinnar bornar saman við samtímann og þá framtíðarsýn sem við okkur blasir" var haldin 6. september á Hrafnseyri og 7. september á Ísafirði. Námskeiðin þrjú voru "Fostering Adult Learner Empowerment through Storytelling and Folklore" (FALESAF) haldið 28.- 30. mæí.; "Vettvangsskóli í fornleifafræði á Hrafnseyri" haldin 10. ágúst - 6. september og "Sumarháskóli í safnfræðslu - söfn og umhverfi sem námsvettvangur", sem haldið var 30. ágúst - 1. september. Fjórða námskeiðið, sem Hrafnseyri tók þátt í og var með til að undirbúa, kallaðist "Alien Energy Storytelling Workshop", og var haldið í Reykjavík þann 24.- 26. október, en ekki var hægt að halda það á Hrafnseyri sökum snjóa.  

 

Ráðstefnur

Ráðstefnan  "Hrafn Sveinbjarnarson - höfðingi, pílagrímur og læknir" fór fram 24. ágúst á Hrafnseyri og var svo endurtekin í Reykjavík 5, október. Um var að ræða hátíðardagskrá til minningar um Hrafn Sveinbjarnarson, sem unnin var í samstarfi við Heilbrigðissvið Háskóla Íslands, Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar, Stofnun Árna Magnússonar og Vestfirði á Miðöldum. Ráðstefnan var styrkt af Menningarráði Vestfjarða og Prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands. 

Hrafn var einn vinsælasti höfðingi landsins á seinni hluta 12. aldar, en höðingjaveldi hans náði frá Ísafjarðardjúpi suður um alla Vestfirði og norðanverðan Breiðafjörð. Hann var víðförull og ferðaðist meðal annars til Noregs, Englands, Frakklands, Spánar og Ítlalíu á sinni stuttu ævi, en hann var rúmlega fertugur er hann var tekinn af lífi árið 1213. Hann var kirkjunnar maður og vildi veg hennar sem mestan, en síðast en ekki síst er Hrafn talinn vera fyrsti „nútíma“ læknirinn á Íslandi. 

Ráðstefnan "Í Byrjun Tveggja Alda - hugsjónir aldamótakynslóðarinnar bornar saman við samtímann og þá framtíðarsýn sem við okkur blasir" sem haldin var 6. og 7. september, fjallaði um hvar við stöndum í dag og hvert stefni í umhverfis- og samfélagsþróuninni, og hvað við getum lært af aldamótakynslóð 20. aldar.

 

Námskeið

Í lok mæí tók skólinn þátt í alþjóðlegu menningarverkefni (námskeiði) sem kallaðist "Fostering Adult Learner Empowerment through Storytelling and Folklore" (FALESAF), en verkefnið byggist á því að deila og miðla þekkingu á þjóðsögum og þjóðsagnahefð milli landa. 30 manna hópur frá Íslandi, Búlgaríu, Írlandi, Englandi og Þýskalandi dvöldust hér í þrjá daga og hlustuðu á og kynntu sér íslenskan kvæðasöng, sögu staðarins og fleiri sögur úr héraðinu, auk þess sem þau heimsóttu aðra sögustaði á norðanverðum Vestfjörðum. Verkefnið, sem unnið var í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík, var undir stjórn Margrétar Hallmundsdóttur fornleifafræðings.

Annað námskeiðið var haldið 30. ágúst - 1. september og kallaðist "Sumarháskóli í safnfræðslu- söfn og umhverfi sem námsvettvangur". Þetta námskeið hefur nú verið haldið í 3 sumur með sömu kennurunum og hefur því verið fastur liður í Sumarháskóla Hrafnseyrar. Námskeiðið hefur frá upphafi verið haldið í samstarfi við námsbraut í Safnafræðum og Rannsóknarseturs í Safnafræðum við Háskóla Íslands, undir stjórn Sigurjóns B. Hafsteinssonar PhD, dósent í safnafræðum við félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sem, ásamt fimm öðrum kennurum, hefur haft veg og vanda af námskeiðinu. Þar að auki er námskeiðið haldið í samstarfi Norska húsið - Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla í Stykkishólmi, Landnámssýningin Reykjavík 871+/-2, Árbæjarsafn, Hönnunarsafn Íslands og Prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands. 

Þriðja námskeiðið, sem haldið var síðastliðið sumar var "Vettvangsskóli í fornleifafræði á Hrafnseyri" sem unnið var í samfstarfi við Fornleifadeild Náttúrustofu Vestfjarða undir stjórn Margrétar Hallmundsdóttur fornleifafræðings. Vettvangsskólinn hefur starfað á Hrafnseyri undanfarin tvö ár með um 10 nemendum frá hinum ýmsu háskólum í Bretlandi og Skotlandi, sem dvalist hafa í góðu yfirlæti í 2-4 vikur á staðnum.

Fjórða námskeiðið, "Alien Energy Storytelling Workshop" var haldið í samvinnu við IT Universitet í Kaupmannahöfn. Um var að ræða alþjóðlegt námskeið fyrir doktorsnema í rannsóknarverkefni við IT háskólann sem stunda samanburðarrannsóknir á áhrifum og afköstum á endurnýjanlegri orkuvinnslu á Íslandi (gufuaflsvirkjanir), Danmörku (sjávarfallavirkjun) og Orkneyjum (sjávarfallavirkjun). 

Opnunartími (Opening hours)

1. júní - 3. september

kl. 11:00 - 17:00 alla daga

Á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hópar utan opnunartíma
50.000 kr. lágmarksgjald (15 manns).
1.500 kr. fyrir hvern umfram 15.

Sími: 456-8260
Netfang: hrafnseyri@hrafnseyri.is

 

Upplýsingar

Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.

A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.