Island - Arnarfjörður
Island - Arnarfjörður
1 af 3

Landnám Hrafnseyrar.

Landnám á Íslandi er yfirleitt talið hafa hafist með landnámi Ingólfs Arnarsonar  í Reykjavík kringum 870/74 og endað með stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930, er Ísland var talið fullnumið. Á þessum tíma sigldu þúsundir manna frá nágrannalöndunum í austri, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Orkneyjum (Skotlandi) og öðrum löndum til Íslands og settust þar að. Flestir landnemana komu þó frá Norgi, að talið er, en þar að auki kom allnokkur fjöldi þræla og ambátta frá Írlandi og öðrum löndum.

Þess ber þó að geta að áður en þetta skipulega landnám hófst, þá höfðu komið hingað til lands nokkrir aðilar sem reynt höfðu landnám en horfið fljótlega á brott. Einn þessara manna var Hrafna-Flóki, sem reyndi landnám kringum árið 865 í Vatnsfirði í norðanverðum Breiðafirði á Vestfjörðum. Vatnsfjörður var á þessum tíma fullur af fiski og stunduðu nýbúarnir veiðarnar af svo miklum krafti að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir veturinn. Það varð til þess að allt kvikféð drapst um veturinn og þess vegna yfirgaf fólkið landið. En áður en fólkið fór, segir Landnáma frá eftirfarandi: „Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum, því kölluðu þeir landit Ísland, sem það hefur síðan heitit“. 

 

Arnarfjörður er annar stærsti fjörðurinn á Vestfjarðarkjálkanum. Fjörðurinn er milli 5 og 10 km breiður og meir en 30 km langur. Hann er samansettur af einum ytri höfuðfirði (Arnarfjörður), Borgarfirði sem eystri hluta og Suðurfjörðum sem syðrihluta fjarðarheildarinnar.

Samkvæmt Landnámubók er Arnarfjörður kenndur við landnámsmanninn Örn, sem flúði frá Rogalandi í Noregi til Íslands undan ofríki Haralds konungs hárfagra (um 850 - 933) og settist að á Tjaldanesi í norðanverðum Arnarfirði, þar sem hann nam land að eigin vild.  

Ári síðar flúði Án rauðfeldur ofríki Haralds. Eftir að hafa herjað á Írland,  sigldi hann til Íslands og settist að í Dufansdal með föruneyti sitt, sem er í einum suðurfjarða Arnarfjarðar.

Á Írlandi tók Án Grelöðu dóttur Bjartmars jarls sér fyrir konu, en ekki líkaði Grelöðu dvölin í Dufansdal, því þar þótti henni illa ilma úr jörðu, og keyptu þau Án allt land af Erni, frá Langanesi að Stapa, þegar hann fluttist búferlum árið eftir til frænda sinna í Eyjarfirði. Án og Grelöð settust þá að jörðinni Eyri í norðanverðum Arnarfirði, eins og Hrafnseyri hét þá, en þar þótti Grelöðu hunangsilmur vera úr grasi. Án og Grelöð sitja að búi sínu á Eyri á fyrri hluta tíundu aldar. Þegar Án andast er hann heygður uppi á múla þeim sem gnæfir yfir Hrafnseyri sem síðan ber nafn hans og heitir Ánarmúli.

Opnunartími (Opening hours)

1. júní - 3. september

kl. 11:00 - 17:00 alla daga

Á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hópar utan opnunartíma
50.000 kr. lágmarksgjald (15 manns).
1.500 kr. fyrir hvern umfram 15.

Sími: 456-8260
Netfang: hrafnseyri@hrafnseyri.is

 

Upplýsingar

Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.

A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.