Heill heimur af börnum á Ísafirði

Frá opnun Menningarmótsins!
Frá opnun Menningarmótsins!

Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri hóf dagskrá í tengslum við 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins í síðustu viku með þátttöku í Púkanum – Barnamenningarhátíð Vestfjarða. Eitt af þeim verkefnum sem Hrafnseyri tekur þátt í af þessu tilefni nefnist Heill heimur af börnum – Börn setja mark sitt á Íslandskortið og er unnið í samstarfi við Þjóðgarðinn á Þingvöllum og Kristínu R. Vilhjálmsdóttur menningarmiðlara.

Nemendur Grunnskólans á Ísafirði tóku þátt í verkefninu í vikunni og var það jafnframt hluti af Púkanum – Barnamenningarhátíð Vestfjarða.

Markmið Heils heims af börnum er að skapa meðvitund um mikilvægi þess að kynnast sögu, styrkleikum og hugmyndaauðgi annarra og efna til samræðu um hvernig við öll skiptum máli í lýðræðislegu samfélagi. Um leið er lögð áhersla á að hlúa að virðingu fyrir hvert öðru þvert á fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Horft er til fortíðar og framtíðar og staldrað við í nútímanum. Augu barnanna eru opnuð fyrir því ríkidæmi sem er að finna á hverjum og einum stað, bæði í staðnum sjálfum og í fólkinu sem þar býr. Börnin taka sjálf þátt í því að skilgreina „ríkidæmið“ í nærumhverfi sínu, fólkið, landslagið, náttúruna, menningarlífið og menningararf. Verkefnið fellur því einstaklega vel að þema Púkans þetta árið en á hátíðinni velta börnin fyrir sér spurningunni: Af hverju búum við hér?

Í Grunnskólanum á Ísafirði unnu börn á miðstigi að fjölbreyttum verkefnum í vikunni. Þau bjuggu til risastóran tungumálaregnboga sem hafði að geyma orð á öllum þeim tungumálum sem hópurinn býr að. Orðin endurspegluðu þau gildi sem börnin vildu leggja áherslu á í vinnunni: Ást, frið, hamingju, fjölskyldu, líf, lýðræði og vináttu. Einnig unnu þau hvert fyrir sig að tímalínu eigin ævi, myndrænni sól sem lýsir því hvað fær þau til að ljóma og settu saman sína eigin persónulegu fjársjóðskistu með munum sem skipta þau máli.

Vikan endaði svo á glæsilegu Menningarmóti þar sem börnin kynntu afrakstur vinnu sinnar.

Sannarlega skemmtileg vika að baki með miðstigi Grunnskólans á Ísafirði.

Næstu skref í verkefninu eru þau að safna saman efni frá sem flestum skólum á landinu og birta á Íslandskorti barnanna.

Til baka

Upplýsingar

Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.

A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.

Opnunartími (Opening hours)

1. júní - 8. september

kl. 11:00 - 17:00 alla daga

Á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hópar utan opnunartíma
Vinsamlegast hafið samband til að bóka komur hópa utan opnunartíma.

Sími: 456-8260
Netfang: hrafnseyri@hrafnseyri.is