Jón Sigurðsson lifði og starfaði á þremur stöðum um ævina; á Hrafnseyri við Arnarfjörð, í Reykjavík og í Kaupmannahöfn.

Hann fæddist á prestssetrinu Hrafnseyri í Auðkúluhreppi við Arnarfjörð 17. júní 1811. Hann var frumburður séra Sigurðar Jónssonar aðstoðarprests þar og konu hans Þórdísar Jónsdóttur, og hlaut nafn sitt frá afa sínum, séra Jóni Ásgeirssyni í Holti í Önundarfirði. Hinn afinn, séra Jón Sigurðsson var prestur á Hrafnseyri. Yngri systkini Jóns voru Jens, fæddur 1813, sem síðar varð rektor Lærða skólans í Reykjavík og Margrét, fædd 1816, síðar húsfreyja á Steinanesi í Arnarfirði.

 

Lítið er vitað um æsku Jóns en hann mun hafa haft gott sjálfstraust úr foreldragarði og þótti prúður og bráðger. Þrettán ára gamall fékk hann leyfi til að róa á árabát Hrafnseyrarklerks eina vetrarvertíð frá Verdölum, yst við Arnarfjörð sunnanverðan. Hann átti að fá hálfan hlut en fékk því framgengt með harðfylgi að fá að róa sem fullgildur háseti og kom þar í ljós kappgirni hans. Ári seinna fermdist hann með umsögninni „vel læs, kunnandi og frómlyndur“. Jón fékk snemma fallega rithönd svo að hann var fenginn til að skrifa upp almanök fyrir sveitunga sína og lét hann þá fylgja með vísur með sem hann hafði sjálfur ort.

 

Í byrjun 19. aldar er Jón fæddist voru Íslendingar bláfátæk þjóð en Arnfirðingar, sem töldu um 700 manns, voru í fararbroddi nýrra atvinnuhátta, svo sem veiða á þilskipum, og alls ekki eins afskekktir og ætla mætti.  En erfitt var í ári um þessar mundir vegna harðinda og stopulla siglinga af völdum styrjalda í Evrópu.

 

Á prestssetrinu Hrafnseyri í Auðkúluhreppi sveif upplýsingastefna og skynsemishyggja 18. aldar yfir vötnum. Þar hafði séra Jón Sigurðsson reist nýstárlegan bæ, svokallaðan burstabæ, en þeir voru nú að byrja að ryðja sér til rúms á Íslandi. Faðir Jóns, séra Sigurður á Hrafnseyri, sendi ekki Jón son sinn í Bessastaðaskóla eins og eðlilegt hefði mátt vera um svo efnilegan pilt. Þess í stað ákvað hann að kenna honum sjálfur til stúdentsprófs og hafa vafalaust ráðið því búhyggindi séra Sigurðar sem ekki var ríkur maður.

 

En með þessu ráðslagi fór Jón á mis við samfélag skólapilta. Námsefnið heima á Hrafnseyri var nokkurn veginn það sama og kennt var í Bessastaðaskóla og mest áhersla lögð á latínu. Augljóst er að Jón Sigurðsson var bókaormur á unga aldri og mjög fróðleiksfús. Hann eignaðist hluta úr jörðinni Gljúfurá og byggðist sá eignarhlutur á gjöf frá afa hans og alnafna. Þessi litla jarðareign varð seinna grundvöllur að þingmennsku Jóns fyrir Ísafjarðarsýslu en þá var eign skilyrði fyrir kjörgengi til þings.

 

 

Reykjavík 1835
Reykjavík 1835
1 af 3

Í Reykjavík vann Jón sem búðarsveinn og biskupsritari í fjögur ár (1829 - 1833) auk þess sem hann dvaldi í Reykjavík yfir þingtímann, 2-4 mánuði í hvert sinn, annað hvert sumar.

Vorið 1829, þegar Jón var næstum því 18 ára, hélt hann til smábæjarins Reykjavíkur til að taka stúdentspróf hjá dómkirkjuprestinum og fékk hann afar loflega prófumsögn. Jafnframt fékk hann prédikunarleyfi og hefði getað orðið prestur við svo búið. Þá bjuggu í Reykjavík um 600 manns. Jón bjó hjá föðurbróður sínum í Aðalstræti 5, Einari Jónssyni, sem var verslunarstjóri Knudtzonsverslunar í Hafnarstræti. Hjá honum vann Jón sem búðarloka fram til næsta árs.

Árið 1830 fékk Jón Sigurðsson vinnu sem ritari hjá biskupnum yfir Íslandi, Steingrími Jónssyni, sem bjó í Laugarnesi í nágrenni Reykjavíkur. Þar var hann heimilisfastur í þrjú ár. Hann kynntist á biskupssetrinu stærsta bóka- og handritasafni landsins, sem komið var úr Skálholti, og náði fljótlega leikni í að lesa gömul handrit. Hann var fenginn til þess að aðstoða menn, svo sem málfræðinginn Sveinbjörn Egilsson, sem komu að Laugarnesi til að kynna sér forn handrit. Eitt sumarið fór Jón í langa vísitasíuferð með biskupi um Vesturland.

Áður en hann sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1833 trúlofaðist hann Ingibjörgu Einarsdóttur sem var sjö árum eldri en hann. Hún var dóttir fyrrnefnds Einars Jónssonar verslunarstjóra og voru þau því bræðrabörn. Hún sat síðan í festum næstu 12 ár.

Garður (Regensen)
Garður (Regensen)

Haustið 1833 sigldi Jón Sigurðsson til Kaupmannahafnar að nema málfræði og sögu og fékk inni á Garði (Regensen) þar sem hann bjó í fjögur ár og kallaði sig Jón Sivertsen. Hann stundaði nám sitt af kappi og hlaut strax  góðar einkunnir. Hann stundaði talsverða vinnu með námi sem ekki veitti af því hann hafði lítil fjárráð, en þetta varð til þess að námið sat stundum á hakanum. Árið 1838 lauk Garðvist Jóns Sigurðssonar. Hann hélt áfram námi enn um hríð en vegna anna við handritarannsóknir og útgáfustarfsemi lauk hann aldrei prófi.

 

Eftir þetta bjó Jón í herbergjum á ýmsum stöðum í Kaupmannahöfn. Um þær mundir hóf hann afskipti af stjórnmálum og stofnaði tímaritið Ný félagsrit (1841). Hann eignaðist brátt marga einlæga aðdáendur – og varð foringi í nývaknaðri þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga.

 

Eftir að Jón giftist frændkonu sinni, Ingibjörgu Einarsdóttur, árið 1845 stofnuðu þau heimili í Kaupmannahöfn. Hjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn, áður en þau fluttu í stóra og glæsilega íbúð við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852 en þar bjuggu þau síðan til æviloka og héldu uppi mikilli risnu. Haustið 1859 tóku þau til sín fósturson, Sigurð Jónsson 8 ára, systurson Jóns vestan af fjörðum, og ólu hann upp sem sinn eigin son en sjálf voru þau barnlaus.

 

Einu sinni í viku var opið hús hjá Jóni og þá söfnuðust Íslendingar þar saman, til að ræða málin og njóta gestrisni og veitinga. Jón sat oftast að störfum við skrifborð sitt en jafnskjótt og  gestirnir komu stóð hann upp, fagnaði þeim og bauð þeim til sætis. Síðan var skrafað og skeggrætt þar til húsfreyja kom og bauð mönnum til borðs. Eftir borðhald var haldið aftur inn á skrifstofu Jóns og boðið upp á vindla og púns. Síðustu árin fór Jón daglega í gönguferðir út á Tollbúð, Löngulínu eða upp á virkisveggjunum, oft í fylgd íslenskra stúdenta.

 

Hinn 7. desember 1879 andaðist Jón í hornstofunni í íbúð sinni við Øster Voldgade, 68 ára gamall, og aðeins 11 dögum síðar dó Ingibjörg. Andláti Jóns var slegið upp á forsíðum danskra dagblaða og haldin var fjölmenn minningarathöfn um hann í Garnisonkirkjunni.

 

Jón Sigurðsson átti því heima í Kaupmannahöfn allt frá því hann hóf nám við Kaupmannahafnar-háskóla um jólin 1833 þar til hann lést á heimili sínu við Austurvegg í desember 1879 eða í rétt 46 ár.

Fljótlega eftir að Jón Sigurðsson hóf nám í málfræði við Kaupmannahafnarháskóla spurðist það út að hann væri nákvæmur og gagnrýninn í öllum vinnubrögðum. Jón fékk því mikla aukavinnu. Hann sat oft „á Turni“, þar sem Árnasafn og háskólabókasafnið voru, eða á Konunglegu bókhlöðunni á Hallarhólmanum og skrifaði upp forn handrit fyrir ýmsa aðila.

Á námsárum Jóns Sigurðssonar var mikil ólga meðal stúdenta og menntamanna í Kaupmannahöfn.  Þeir kröfðust stjórnarskrár, þar sem ýmis mannréttindi væru tryggð, og þingbundinnar konungsstjórnar en Danmörk var þá enn einvaldsríki.

Opnunartími (Opening hours)

1. Júní - 8. september

kl. 11 - 18 alla daga

Á öðrum tímum eftir samkomulagi

 

800 kr.      Aðgangseyrir (Tickets).

500 kr.      Hópar (10 mans eða fleiri),

                 öryrkjar, aldraðir.

                 (Groups (10 peole or more),

                  disabled, elderly.)

   0 kr.      16 ára og yngri

                (16 years and younger).

 

         Sími: 845-5630 og 456-8260 

 

Upplýsingar

Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.

A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.